Árið
2014 var fyrsta starfsár Orku náttúrunnar. Fyrirtækið, sem í daglegu tali er
gjarnan kallað ON, var stofnað af Orkuveitu Reykjavíkur til að mæta lagakröfu
um að aðskilja samkeppnisstarfsemi frá veiturekstri OR. Orka náttúrunnar á
rætur sínar að rekja til þess tíma þegar Elliðaárstöðin var vígð
snemma á síðustu öld og býr því að áratuga langri reynslu af framleiðslu
og sölu á raforku.
Stærstu jarðvarmavirkjanir landsins, Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun, eru í eigu ON sem og vatnsaflsvirkjun í Andakílsá í Borgarfirði. Í byrjun ársins hóf ON einnig að selja rafmagn úr roki þegar samið var um kaup á rafmagni úr tveimur vindmyllum í Þykkvabænum. Auk þess að framleiða og selja rafmagn sér ON höfuðborgarsvæðinu fyrir meira en helmingnum af því heita vatni sem þar er notað. Það felast mikil lífsgæði í því að hafa aðgang að heitu vatni og jarðvarmavirkjanir fyrirtækisins gegna lykilhlutverki í heitavatnsöflun fyrir höfuðborgarsvæðið. Fyrirtækið gegnir því mikilvægu hlutverki í orkuframleiðslu landsins. Viðskiptavinir þess eru yfir 82.000 talsins, bæði heimili og fyrirtæki um allt land.
Hjá ON starfar samhentur og öflugur hópur starfsmanna með fjölbreytta menntun og reynslu. Starfsmenn voru 58 í lok ársins. Tekjur fyrirtækisins námu 15 milljörðum króna á árinu og eignir þess um 130 milljörðum króna.
ON fékk heimild Ríkisskattstjóra til að nota bandaríkjadollar (USD) sem starfrækslugjaldmiðil. Með því er meðal annars dregið úr fjárhagslegri áhættu vegna þess hve stórt hlutfall tekna og skulda er í þeim gjaldmiðli. Umbótastarf og fjárhagslegt aðhald er hluti af daglegum rekstri og hefur ON lagt sitt af mörkum til Plansins ásamt öðrum fyrirtækjum í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Fjárhagur ON styrktist á árinu og nam hagnaður af rekstri 23,1 milljón USD, eða um 3 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið fór í 40,3%.
Fyrsta starfsárið var spennandi og árangursríkt. Áhersla var lögð á að kynna nýja vörumerkið, efla þjónustu við viðskiptavini, móta stefnu fyrirtækisins og ná sem bestum árangri á öllum sviðum í rekstrinum. Snemma á árinu hóf ON uppsetningu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla. Með þessu vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til rafbílavæðingar á landinu og hafa viðtökur rafbílaeigenda verið framar vonum. Vefur fyrirtækisins, www.on.is, hefur verið tilnefndur til fjölda verðlauna og nýjungar í þjónustu sem þar eru í boði s.s. reiknivélin hafa fengið góðar viðtökur.
Á árinu mótaði fyrirtækið og innleiddi stefnur og starfsreglur sem lúta meðal annars að góðum stjórnarháttum og faglegum vinnubrögðum. Í þessari vinnu voru öryggis- og umhverfismál sett í forgang og dregið var úr fjárhagslegri og rekstrarlegri áhættu. Mikil áhersla var lögð á að bæta öryggismenningu jafnt starfsmanna og verktaka enda er það markmið ON að vera slysalaust fyrirtæki. Fyrirtækið hefur líka horft til framtíðar og stutt við iðnnám í landinu með því að taka nokkra iðnnema á samning auk þess að taka þátt í átaksverkefni sem miðar að því að auka áhuga ungs fólks á iðnnámi.
Stærstur hluti fjárfestinga ON á fyrsta starfsárinu fór í að hlúa að núverandi virkjanasvæðum. Orkuöflun og umhverfismál vega þar þyngst. Fyrirtækið leggur mikinn metnað í að standa vel að umhverfismálum og að ganga vel frá eftir framkvæmdir sem ráðast þarf í. Uppgræðsluverkefnið við Hellisheiðarvirkjun vakti verðskuldaða athygli og er það fyrirtækinu hvatning til áframhaldandi góðra verka á því sviði.
Orkuöflun er eðlilegur og nauðsynlegur hluti af rekstri jarðvarmavirkjana og eitt stærsta verkefni ársins var að hefja lagningu Hverahlíðarlagnar frá borholum í Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun. Áætlað er að því verki ljúki um næstu áramót.
Einn af mikilvægustu áföngum ársins var gangsetning lofthreinsistöðvar í Hellisheiðarvirkjun til að draga úr styrk brennisteinsvetnis og þeirri hveralykt sem íbúar hafa fundið í byggð. Reynslan af lofthreinsistöðinni lofar mjög góðu og allt bendir til að hér sé um varanlega lausn að ræða.
Í virkjunum ON er stöðugt unnið að þróun starfseminnar og er gangsetning nýs viðhaldsverkstæðis fyrir gufuhverfla til marks um það. Verkstæðið er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi því hingað til hefur slík þjónusta verið sótt til annarra landa, með tilheyrandi áhættu og tilkostnaði í erlendum gjaldeyri. Þetta er mikið framfaraspor sem mun lækka framtíðar viðhaldskostnað til muna og byggja upp þekkingu á viðhaldi gufuhverfla í landinu.
Við hjá Orku náttúrunnar erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á þessu fyrsta starfsári fyrirtækisins og munum áfram vinna af heilum hug að því að ON verði orkufyrirtæki í fremstu röð til framtíðar.
Páll Erland,
framkvæmdastjóri
Við kappkostum að sinna almenna rafmagnsmarkaðnum með gildi okkar að leiðarljósi, sem eru; framsýni, hagsýni og heiðarleiki.
Heildarfjöldi viðskiptavina á almenna markaðnum er um 82.500. Hann samanstendur af heimilum og fyrirtækjum, fyrir utan stóriðju.
Skipting á almennum markaði ON
Hjá Orku náttúrunnar er mikið lagt upp úr ráðgjöf varðandi bætta notkun og góða nýtingu rafmagns sem og því að viðskiptavinir hafi góða heildarsýn á viðskipti með upplýsingum sem eru aðgengilegar rafrænt, t.d. reikningar, notkun og önnur yfirlit. Á fyrirtækjamarkaði bætist svo við ráðgjöf um val á taxta byggt á notkunarferlum. Við leggjum áherslu á ráðgjöf sem veitir viðskiptavinum upplýsingar um hvers virði það getur verið fyrir hann að breyta verklagi sínu ef þörf krefur. Í þessum tilfellum gefa breytingar oft umtalsverðan sparnað til framtíðar. Við bjóðum upp á fjölbreytni í skýrslum og yfirlitum, sem og öflugar greiningar á notkun og kostnaði sem nýtist fyrirtækjum vel.
Þjónustuvefir okkar eru í stöðugri þróun fyrir bæði heimili og fyrirtæki og það er markmið að bæta okkur sífellt á því sviði. Viðskiptavinir koma að þessari þróun enda skiptir þessi þáttur sífellt meira máli. Það er ein öflugasta leiðin til að bæta þjónustu og ráðgjöf til framtíðar, sem og auka viðskiptavild.
Með viðskiptum við ON viljum við að viðskiptavinir okkar fái heildarsýn á orkukaupin og reglulega endurgjöf á þróun viðskiptanna.
Á miðju síðasta ári opnuðum við á vef okkar, www.on.is áhugaverða reiknivél en í henni geta viðskiptavinir slegið inn helstu heimilistæki sín til að áætla orkunotkun sína. Með niðurstöðum geta viðskiptavinir meðal annars séð hvaða heimilistæki eru að nýta mestu orkuna og á þann hátt ef til vill nýtt orkuna betur.
Rafmagn er ekki dýrt á Íslandi miðað við t.d. Norðurlöndin, en engu að síður er mikilvægt fyrir okkur að nýta það af ábyrgð og ganga vel um auðlindir okkar.
Í tengslum við þessa þjónustu fórum við á stúfana og spurðum við fólk sem var að kaupa sér raftæki hvort það væri meðvitað um orkunotkun sína:
ON sinnir viðhaldsþjónustu í götulýsingu til viðskiptavina þ.e. sveitarfélaga, Vegagerðar og einkaaðila. Götulýsingin er í eigu viðskiptavinanna, en ON gerir þjónustusamninga um viðhald og hefur umsjón með að samningunum sé framfylgt.
Á starfssvæði ON eru um 50.000 lampar, af mörgum og ólíkum lampategundum. Um það bil 75% af þeim eru gamlir, úreltir og jafnvel hættir framleiðslu. Götuljósastólpar eru um 45.000 og eru 3.000 þeirra komnir yfir 40 ára aldurinn, sem telst vera líftími þeirra.
Innflutningur og sala á kvikasilfurperum er bönnuð frá apríl 2015. Hefur það í för með sér að endurnýja þarf kvikasilfurslampa og eru um 45% lampa á starfssvæði ON kvikasilfurlampar eða um 21.100 stykki, sjá meðfylgjandi stöplarit um fjölda lampa.
Kvikasilfurslampar voru á sínum tíma valdir vegna ljósgæða, birtan er „hvít“ og litarendurgjöf ljóssins betri fyrir mannsaugað en það gerir liti greinilegri og hentar því betur í borg og bæjum. Aftur á móti hafa natríumlampar „gulan“ lit sem hentar betur á þjóðvegum landsins. LED-lampar koma að öllum líkindum í stað eldri og úreltra lampa. Lækkandi verð, minni orkunotkun og meiri gæði LED-lampa gerir þá að hagkvæmum valkosti.
ON telur mikilvægt að stuðla að aukinni rafbílavæðingu á Íslandi og gera rafbíla að raunhæfum og hagkvæmum valkosti fyrir heimili, stofnanir og fyrirtæki. ON er í samstarf við B&L og Nissan Europe varðandi uppsetningu á 10 hraðhleðslustöðvum sem eru með svokölluðum CHAdeMo staðli. Um tilraunarverkefni er að ræða en það er mikilvægt varðandi þessa uppbyggingu að fá reynslu í rekstri stöðvanna, eins og t.d. hvernig þær eru að reynast í íslenskum vetri. Það tekur um 20-30 mínútur að hlaða bílana upp í 80% hleðslu.
Þegar verkefnið hófst var mikill meirihluti rafbíla á höfuðborgarsvæðinu og var markmiðið að auka drægni þeirra frá höfuðborgarsvæðinu. Því var teiknaður upp "krans" í kringum höfuðborgarsvæðið, með því voru þær vegalengdir sem rafbílaeigendur komust orðnar talsvert langar. Aðrir þættir voru hafðir til hliðsjónar t.d. nálægð við 400V dreifistöð, að um einhvera viðveru væri að hafa á hleðslustöðinni og að fjarlægð milli tveggja stöðva væri ekki meiri en 80 km.
Fyrstu tvær stöðvarnar voru opnaðar 11. mars 2014 og sú níunda var opnuð við Fríkirkjuveg þann 19. nóvember 2014. Notkun hraðhleðslustöðvanna hefur farið fram úr björtustu vonum, og á árinu fjölgaði rafmagnsbílum talsvert.
Orka náttúrunnar á og rekur þrjár virkjanir, tvær jarðgufuvirkjanir annars vegar á Nesjavöllum og hins vegar á Hellisheiði. Í Andakíl í Borgarfirði rekum við vatnsaflsvirkjun. Uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar er 303 MW í rafmagni og 133 MW af varmaorku. Uppsett afl í Nesjavallavirkjun er 120 MW af rafmagni og 300 MW af varmaorku. Heildarframleiðslugeta í Andakílsárvirkjun er 8 MW.
Framleiðsla í öllum virkjunum ON gekk vel á árinu.
Rekstur Hellisheiðarvirkjunar gekk vel á árinu og fylgdi þeim áætlunum sem gerðar voru. Ekki var um neinar stórvægilegar uppákomur að ræða í rekstri. Heildar raforkuframleiðsla á Hellisheiði 2014 var, 2.388.344 MWh, er það svipað og árið 2013. Ekki var um neinar stórar nýframkvæmdir við vélbúnað árið 2014 á Hellisheiðinni.
Heitavatnsframleiðsla á Hellisheiði gekk vel og var það vatn sem sent var til Reykjavíkur eins og gert hafi verið ráð fyrir. Vatnsmagn sem sent var til Reykjavíkur frá Hellisheiði var 10.460.000 rúmmetrar.
Nesjavellir voru keyrðir samkvæmt keyrsluáætlun, reksturinn gekk vel og ekki var um neinar óvæntar uppákomur að ræða. Heildar rafmagnsframleiðsla á Nesjavöllum 2014 var 1.028.335 MWh. og er það í takt við undanfarin ár. Ekki voru neinar stórar framkvæmdir á Nesjavöllum á árinu 2014.
Heitavatnsframleiðsla á Nesjavöllum gekk vel og var í takt við fyrri ár en þó heldur lægri. Stafar það af aukinni varmaframleiðslu á Hellisheiði. Heildar framleiðsla Nesjavallavirkjunar á heitu vatni var 24.460.000 rúmmetrar.
ON er í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands‚Vélvík og þrjá aðila í Rúmeníu um þróun á ásprautun á málma. Verkefnið er að þróa keramik húðun á málma til að verja þá fyrir áraun sem málmar verða fyrir í hverflum og dælum við nýtingu á jarðvarma. Verkefnið tekur þrjú ár og er styrkt af Evrópusambandinu.
Orkuöflun hjá ON er að mestu leyti úr eigin virkjunum en að auki er keypt orka frá öðrum aðilum, þar á meðal kaupum við rafmagn sem framleitt er úr roki. Tvær vindmyllur í Þykkvabæ í eigu Biokraft ehf. bættust í hópinn um mitt sumar 2014. ON kaupir allt rafmagn sem kemur frá vindmyllunum, auk þess fær ON aðgang að rannsóknargögnum og mælingum. Tilgangurinn er að fá innsýn í rekstur vindmylla hérlendis og er þetta allt í senn fróðlegt, skemmtilegt og spennandi verkefni sem felst í því að búa til verðmæti úr rokinu. Um er að ræða tvær Vestas V44 myllur, með hámarksframleiðslu 600 kW hvor, sem gæti t.d. annað rafmagnsþörf um 1.000 heimila.
Meðal nýtingartími hámarksafls yfir mánuðina ágúst - desember var 38%
Of snemmt er að segja til um hvort ofangreind nýtni sé dæmigerð fyrir þessa mánuði og tímabilið í heild. Þó má gera ráð fyrir að útkoman verði hliðstæð þegar fram líða stundir; ávallt eru einhverjir upphafshnökrar í hverri nýrri virkjun (sem lækkar útkomuna, samanborið við venjulegan rekstur) en á hinn bóginn var sumarið ef til vill hvassara en oft áður (sem gæti hækkað útkomu þessa árs sbr. við meðaltalið). Vindmyllurnar hafa staðist alla veðurfarslega áraun hingað til.
ON nýtir háhitasvæði í Henglinum til framleiðslu á heitu vatni og rafmagni í tveimur jarðvarmavirkjunum, á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Við nýtingu háhitaauðlindarinnar er rík áhersla lögð á ábyrga auðlindastýringu og vel er fylgst með viðbrögðum svæðisins við orkuvinnslunni. Þar má nefna umfangsmiklar rannsóknir sem nú eru í gangi á áhrifum þess á auðlindina að dæla aftur niður í jarðhitakerfið þeim jarðhitavökva sem berst úr háhitaholum, eftir að hann hefur nýst til orkuvinnslunnar. Niðurdælingin er talin auka sjálfbærni jarðhitanýtingar á Hellisheiði. Lagning gufulagnar sem tengir jarðhitasvæðið í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun hófst haustið 2014. Tilkoma Hverahlíðarlagnar mun styðja enn frekar við ábyrga nýtingu á svæðinu sem og veita mikilvægar upplýsingar um jarðhitakerfið á sunnanverðu Hengilssvæðinu.
Hér má sjá myndband af fyrirhugaðri leið Hverahlíðarlagnarinnar:
Á sumrin starfar hópur unglinga við landgræðslu og fegrun umhverfis við virkjanir fyrirtækisins. Meðal verkefna sumarsins 2014 var endurheimt á mosaþembu þar sem mosahræringur, sem samanstendur af súrmjólk, vatni og mosa, var notaður til að græða upp rofbletti. Líkt og undarfarin ár klippti hópurinn einnig víðigræðlinga á svæðinu og gróðursetti í því skyni að rækta upp náttúrulegt víðikjarr. Ýmis fleiri verkefni voru unnin í sumar og má þar nefna áburðardreifingu, ruslahreinsun og söfnun og dreifingu fræslægju.
Á vormánuðum 2014 var gangsett lofthreinsistöð á Hellisheiði. Stöðin var afhent virkjunum til reksturs 30. október. Reksturinn gengur vel og hefur verið án mikilla frávika frá áætlun. Ef áætlanir ganga eftir má gera ráð fyrir að stöðin verði stækkuð um helming.
Með tilkomu hennar er nú um 25% af öllu brennisteinsvetni hreinsað úr þeim jarðhitagösum sem losna vegna vinnslunnar á Hellisheiði. Einnig er í undirbúningi bygging gufuháfs sem mun nýtast til að dreifa betur því brennisteinsvetni sem upp úr háhitaholunum kemur og stuðla þannig að enn minni styrk brennisteinsvetnis í byggð.
ON rekur tvær loftgæðamælistöðvar nálægt þéttbýli sem mæla styrk brennisteinsvetnis (H2S) í andrúmslofti. Þessar stöðvar eru í Norðlingaholti í Reykjavík og við Finnmörk í Hveragerði. Loftgæðamælistöðvarnar eru báðar með sams konar búnaði, þ.e. Thermo 450i mælitæki sem mæla styrk H2S í andrúmslofti ásamt tilheyrandi loftinntaki og öðrum hjálparbúnaði. Mælingar á styrk H2S í μg/m3 eru skráðar á 10 mínútna fresti og breytt í meðalstyrk á klukkustund sem er hentug tímaeining til allra útreikninga á styrk H2S í andrúmslofti skv. reglugerð. Hlaupandi 24 stunda meðaltalsmæling er reiknuð hverju sinni sem meðaltal núverandi klukkustundarmælingar og 23 klukkustundamælinga næst á undan. Reglugerðin segir til um að hlaupandi 24 klst meðaltal mælinganna megi fara allt að þrisvar sinnum yfir heilsuvernadarmörkin sem eru 50 μg/m3.
SulFix er nýsköpunarverkefni sem unnið hefur verið að við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007. Það miðar að því að farga brennisteinsvetni frá virkjuninni með hagkvæmum, árangursríkum og umhverfisvænum hætti. Tilgangur verkefnisins er að draga úr útblæstri brennisteinsvetnis með því að dæla því aftur ofan í berglögin með affallsvatni. Leitast er við að líkja eftir náttúrulegu ferli á jarðhitasvæðunum.
Carbfix verkefnið er einstakt að því leyti að það tengist beint rekstri jarðvarmavirkjunar. Koltvísýringur, sem kemur upp með jarðhitavökvanum og færi annars út í andrúmsloftið, er þannig bundinn í berg við grennd virkjunarinnar og eykur þar með grænt gildi orkuframleiðslunnar. Koltvísýringur er um 0,42% útblásturs virkjunarinnar.
1. Að auka skilning á því hvað verður um koltvísýring sem dælt er niður berggrunninn til langs tíma litið
2. Að þróa tækni til að binda koltvísýring varanlega í jarðlögum
3. Að gefa út og miðla niðurstöðum rannsókna og tilrauna svo þær geti nýst sem víðast.
Unnið hefur verið markvisst að því að efla öryggismenningu hjá ON, með fræðslu og faglegum vinnubrögðum. Mikil áhersla er lögð á að virkja alla starfsmenn í stjórnun öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismála (ÖHV). Innleitt var á árinu hættumat meðal allra starfsmanna. Aðferðafræðin er nefnd „staldraðu við“ og gengur út á að koma auga á, greina og stýra hættum sem starfsmenn geta orðið fyrir. Tilgangurinn er að fá starfsmenn til að auka öryggisvitund sína, draga úr hraðanum og koma í veg fyrir skaða. Mikil öryggisþjálfun var fyrir starfsmenn t.d. rýmingaræfingar, þjálfun í meðferð slökkvitækja, fallvarnarnámskeið og snjóflóðanámskeið.
Fyrirtækið leggur einnig ríka áherslu á að verktakar sem sinna störfum fyrir ON taki jafn virkan þátt í öryggismálum og starfsmenn ON, með kröfum um öryggisþjálfun og gerð áhættumats fyrir þau störf sem unninn eru fyrir fyrirtækið.
Við leggjum mikla áherslu á öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismál í öllum einingum ON og hefur mikil vitundarvakning verið varðandi skráningu í ÖHV grunn. Tilgangurinn er að bæta verklag og gera alla starfsmenn meðvitaða um vinnuumhverfi sitt.
Um 60 manns starfa hjá Orku náttúrunnar. Hjá okkur er jákvæður starfsandi sem einkennist af sterkri liðsheild, uppbyggilegum skoðanaskiptum og virðingu í samskiptum. Við leggjum áherslu á að beita markvissri starfsmannastjórnun til að mannauður fyrirtækisins nýtist sem best.
Piecharts
Stjórn Orku náttúrunnar er skipuð fólki með fjölbreyttan bakgrunn og mikla reynslu.
Stjórn Orku náttúrunnar
Lauk M.Sc. prófi í hagverkfræði frá Universitaet Karlsruhe í Þýskalandi árið 1992. Hann var um tíma meðeigandi og forstöðumaður fjármála- og kostnaðarráðgjafasviðs PriceWaterhouseCoopers. Frá árinu 2000 hefur hann starfað sjálfstætt sem rekstrarráðgjafi fyrir fjölmörg fyrirtæki, m.a. við hagræðingu í Orkuveitu Reykjavíkur. Ágúst stundar einnig doktorsnám í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík.
Lauk prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaraprófi frá MIT árið 2008 á sviði jarðvarma. Hún er framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur unnið að jarðhitamálum allt frá 2005 og árið 2009 hóf hún störf hjá Department of Energy í Washington þar sem hún hafði umsjón með rannsóknaverkefnum á sviði grænnar orku í Bandaríkjunum.
Lauk Dipl. Phys. prófi í eðlisfræði með aukagreinum í jarðeðlisfræði og stærðfræði frá Verkfræðiháskólanum í Aachen, Þýskalandi, 1963. Hann gegndi embætti rektors Háskóla Íslands á árunum 1991-1997. Rannsóknarefni hans hafa meðal annars verið jarðhitaleit, eldgos og jarðskjálftar hér á landi og einnig ráðgjafarstörf um virkjun jarðhita víða erlendis.
Ingvar Stefánsson er framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hann hefur viðskiptafræðipróf á endurskoðunarsviði auk meistaragráðu í fjármálum og stjórnun og hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu.
Elín Smáradóttir er lögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur. Hún útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1994 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996.
Lauk M.Sc. prófi í hagverkfræði frá Universitaet Karlsruhe í Þýskalandi árið 1992. Hann var um tíma meðeigandi og forstöðumaður fjármála- og kostnaðarráðgjafasviðs PriceWaterhouseCoopers. Frá árinu 2000 hefur hann starfað sjálfstætt sem rekstrarráðgjafi fyrir fjölmörg fyrirtæki, m.a. við hagræðingu í Orkuveitu Reykjavíkur. Ágúst stundar einnig doktorsnám í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík.
Lauk prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaraprófi frá MIT árið 2008 á sviði jarðvarma. Hún er framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur unnið að jarðhitamálum allt frá 2005 og árið 2009 hóf hún störf hjá Department of Energy í Washington þar sem hún hafði umsjón með rannsóknaverkefnum á sviði grænnar orku í Bandaríkjunum.
Lauk Dipl. Phys. prófi í eðlisfræði með aukagreinum í jarðeðlisfræði og stærðfræði frá Verkfræðiháskólanum í Aachen, Þýskalandi, 1963. Hann gegndi embætti rektors Háskóla Íslands á árunum 1991-1997. Rannsóknarefni hans hafa meðal annars verið jarðhitaleit, eldgos og jarðskjálftar hér á landi og einnig ráðgjafarstörf um virkjun jarðhita víða erlendis.
Ingvar Stefánsson er framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hann hefur viðskiptafræðipróf á endurskoðunarsviði auk meistaragráðu í fjármálum og stjórnun og hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu.
Elín Smáradóttir er lögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur. Hún útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1994 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996.
Páll Erland er framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar. Hann lauk MBA í rekstrarhagfræði frá Rockford College Graduate School í Bandaríkjunum árið 1996 og BS í viðskiptafræði frá Rockford College árið 1994. Hann lauk iðnrekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 1992 og varð stúdent frá raungreinadeild Menntaskólans á Akureyri árið 1990. Páll var sölu- og markaðsstjóri hjá Icelandic France (SH) árin 1996–99 og rekstrarráðgjafi hjá Pricewaterhouse Coopers í tvö ár eftir það. Páll hefur unnið hjá Orkuveitunni frá árinu 2001. Hann var framkvæmdastjóri Veitusviðs í sjö ár áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri Virkjana og sölu í lok árs 2012, sem síðan varð ON í ársbyrjun 2014.
Marta Rós Karlsdóttir er forstöðumaður auðlinda. Hún lauk B.Sc í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 2007 en stundaði hluta námsins í orku- og umhverfisverkfræði við NTNU (Norwegian University of Science and Technology). Hún lauk M.Sc í vélaverkfræði frá HÍ 2008 og hóf doktorsnám í nýtingu jarðvarma til framleiðslu á rafmagni og varma sama ár. Samhliða doktorsnámi hefur hún starfað sem stundakennari við HÍ, fyrirlesari hjá Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og leiðbeinandi hjá REYST (Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems). Hún starfaði einnig við gæða- og umhverfismál Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2004-2005.
Brynjar Stefánsson er forstöðumaður sölu- og markaðsmála. Hann er með B.Sc. í Viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og M.Sc. í Rekstrarhagfræði frá Aarhus School of Business. Brynjar hefur m.a. starfað sem markaðs- og sölustjóri hjá Hugviti og var forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Maritech 2002-2006. Hann hóf störf sem Sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Orkueitu Reykjavíkur árið 2006.
Guðmundur Hagalín Guðmundsson er forstöðumaður virkjanareksturs. Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá SDU (University of Southern Denmark) árið 1990. Guðmundur hefur áralanga reynslu í virkjanarekstri og hefur m.a. starfað sem rekstrarstjóri hjá Landsvirkjun og hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem deildastjóri framkvæmda. Guðmundur hóf svo aftur störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur 2011 og tók þá við virkjanarekstri allra virkjana Orkuveitunnar.
Bjarni Már Júlíusson er forstöðumaður tækniþróunar. Hann lauk B.Sc. prófi í rafmagnstæknifræði frá Tækniháskólanum í Óðinsvéum 1990 og lauk meistaraprófi í verkefnastjórnun frá Verkfræðideild Háskóla Íslands (MPM) 2008. Hann lauk Vélfræðingsprófi frá Vélskóla Íslands 1983. Hann starfaði áður hjá Landsvirkjun í 22 ár þar til hann fór til Landsvirkjunar Power 2009 sem verkefnastjóri við erlend virkjanaverkefni, aðallega í Kanada og á Grænlandi. Bjarni hóf störf hjá Orkuveitunni 2012.
Gísli Sveinsson er forstöðumaður sameiginlegs rekstrar. Hann lauk BS prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1986 og hóf störf sem hönnuður rafdreifikerfa við áætlanadeild Rafmagnsveitu Reykjavíkur sama ár. Hann hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem deildarstjóri Áætlanadeildar Framleiðslu, aðstoðarsviðsstjóri Dreifingarsviðs, deildarstjóri Veitukerfa, sviðsstjóri Veitna og forstöðumaður Tækni hjá Veitusviði. Í nóvember 2012 tók Gísli við starfi forstöðumanns Stefnumótunar Virkjana og sölusviðs Orkuveitunnar.